Verslunarráð Íslands boðar til morgunverðarfundar á morgun til að ræða nýlega skýrslu viðskiptaráðherra um íslenskt viðskiptaumhverfi. Að sögn Þórs Sigfússonar, framkvæmdastjóra Verslunarráðs, er þörf að ræða mjög ítarlega þessa skýrslu enda óttast menn mjög að það verði gengið lengra í lagasetningu en annars staðar. "Það sem við höfum miklar áhyggjur af er hvernig þetta kemur út gagnvart litlum óskráðum fyrirtækjum en okkur finnst margt af þeim tillögum sem koma fram í skýrslunni vera mjög íþyngjandi fyrir þau."

Meðal þeirra atriða sem Verslunarráð er að horfa til þar eru ákvæði um að félög þar sem hluthafar eru fjórir eða fleiri en þar er ákvæði um að stjórnin hittist án framkvæmdastjóra. Sagði Þór að þetta væri illskyljanlegt ákvæði og aðeins til þess fallið auka á tortryggni. sama ætti við ákvæði um að stjórnin ákveði aðalfundi öll laun framkvæmdastjóra. Einnig setja menn út á ákvæði eins og það að einuungis þurfi handhafa 10% hlutafjár til þess að fara fram á hluthafafund. "Maður spyr sig hvort þetta eigi við um lítil fyrirtæki og hvort þetta séu réttu aðferðirnar."

Að sögn Þórs hefur Verslunarráð lagt áherslu á að láta leiðbeiningar koma í staðinn fyrir lagasetningu. "Við teljum að þær leiðbeinandi reglur um stjórnunarhætti fyrirtækja, sem við höfum verið að kynna, séu að vinna sér sess. Það er sú leið sem við viljum fara miklu frekar en að festa þeta í lög og ganga þannig lengra en annars staðar."