Fjármálaeftirlitið stendur fyrir morgunverðarfundi næstkomandi mánudag, 11. júní, á Hotel Nordica um útrás íslenskra fjármálafyrirtækja. Í tilefni heimsóknar kínverska bankaeftirlitsins verður sérsaklega fjallað um möguleika og umgjörð kínverska bankamarkaðarins. Formaður kínverska eftirlitsins mun ávarpa fundinn og fjalla um bankastarfsemi í Kína. Lárus Welding, forstjóri Glitnis, mun fjalla um starfsemi Glitnis í Kína og þá möguleika sem bankinn sér á þeim markaði.


Jónas Fr. Jónsson, forstjóri FME, mun fjalla um þau áhrif sem útrás fjármálafyrirtækja hefur haft á starfsemi FME og kynna stefnu FME um erlenda starfsemi íslenskra fjármálafyrirtækja.


"FME starfar orðið í mjög alþjóðlegu umhverfi. Íslensk fjármálafyrirtæki starfa víða og það gerir auknar kröfur til FME?, segir Jónas Fr. Jónsson ítilkynningu eftirlitsins. "Það er engin spurning að samræmd löggjöf á EES svæðinu auðveldar eftirlitsþáttinn vegna fjármálastarfsemi í Evrópu, hinsvegar eykst flækjustigið þegar fjármálafyrirtækin færa sig inn á aðra markaði þar sem regluumhverfið er ólíkt því sem gerist í Evrópu, td. eins og í tilfelli Kína. Í slíkum tilfellum gera eftirlitsaðilar landanna með sér samstarfssamninga um eftirlit og upplýsingaskipti og er stefnt að því að undirrita einn slíkan með fulltrúum kínverska bankaeftirlitsins nú eftir helgi."