Björgólfur Thor Björgólfsson, stjórnarformaður Straums Burðarás Fjárfestingabanka, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna ferðar tveggja stjórnarmanna til FME:

"Vegna fréttar um að tveir stjórnarmenn í Straumi Burðarási hafi farið á fund Fjármálaeftirlitsins til að fá úr því skorið hvort stjórnarfundur sem haldinn var í félaginu í gær (21. júní) hafi verið lögmætur, vill stjórnarformaður félagsins koma eftirfarandi á framfæri.

Þann 21. júní sendi Páll Magnússon stjórnarformanni bréf þar sem hann tjáði honum að hann gæti hvorki mætt á stjórnarfund sem boðaður hafði verið þann dag, þar sem hann væri í fríi með fjölskyldu sinni erlendis, né tekið þátt í fundinum í gegnum síma. Óskaði hann eftir því að tiltekinn varamaður úr hópi kjörinna varamanna tæki sæti hans á fundinum.

Stjórnarformaður varð við þeirri ósk, enda er sú framkvæmd í samræmi við starfsreglur stjórnar, sem kveða á um að stjórnarmenn tilnefni varamenn í sínum forföllum og stjórnarformaður sjái um boðun þeirra. Það að Páll hafi áður tilnefnt annan varamann er málinu óviðkomandi, þar sem slík tilnefning er alfarið á valdi viðkomandi stjórnarmanns hverju sinni. Var það staðfest af lögfræðingi bankans fyrir fundinn. Auk þess hafi verið rétt til fundarins boðað, hann sóttur af fjórum kjörnum aðalmönnum og einum varamanni, sem allir tóku þátt í afgreiðslu þeirra mála er fyrir fundinum lágu. Fundurinn hafi verið haldinn í samræmið við lög, samþykktir og starfsreglur bankans og enginn vafi er um lögmæti fundarins né þeirra ákvarðana sem þar voru teknar."