Dagur B. Eggertsson, fráfarandi borgarstjóri, og Geir H. Haarde forsætisráðherra funduðu um orkumál í fyrradag eða á sama degi og viðræður stóðu yfir milli sjálfstæðismanna og Ólafs F. Magnússonar, borgarfulltrúa Frjálslyndra og óháðra, um myndun nýs meirihluta. Fundurinn fór fram á fimmta tímanum.

Dagur hafði óskað eftir fundinum nokkru fyrir jól til að fá skýrari mynd af áformum stjórnvalda um orkumál. Þær upplýsingar áttu að vera innlegg í umræðu borgarinnar um málefni Orkuveitu Reykjavíkur. Af fundinum varð þó ekki fyrr en í fyrradag. Á fundinum skiptust þeir á upplýsingum um orkumál og Geir greindi Degi frá orkufrumvarpi iðnaðarráðherra sem nú er til meðferðar í þingflokkum stjórnarflokkanna.

Rúmum tveimur tímum síðar tilkynntu sjálfstæðismenn og Ólafur F. Magnússon á Kjarvalsstöðum að þeir hefðu myndað nýjan meirihluta í borginni og að Dagur yrði frá að hverfa í vikunni.