Fura Ösp Jóhannesdóttir er yfirmaður hjá einni virtustu auglýsingastofu New York-borgar. Starf Furu krefst mikillar og náinnar samvinnu við alls konar fólk og það er að hennar mati eitt það skemmtilegasta við starfið.

„Mér finnst fátt skemmtilegra en að ráða inn nýja og ómótaða hönnuði, finna út styrki þeirra og veikleika, vinna með þeim og hjálpa þeim að þróast í bransanum. Stofan sem ég vinn hjá er mjög stór og því er mikið af hæfileikaríku fólki í kringum mig. Ég er því alltaf að læra eitthvað nýtt, bæði frá yfirmönnum mínum og þeim sem eru í teyminu mínu. Allir leggja eitthvað til,“ segir Fura.

Fura segir vinnuna ekki búna þegar hefðbundnum vinnudegi lýkur enda snúist starfið um að fylgjast vel með öllu því sem er að gerast í heimi tækni og auglýsinga. „Það er skemmtilegt en líka erfitt að fylgjast með og vera vel að sér í öllu því nýjasta þegar kemur að tækninýjungum, markaðsaðferðum og auglýsingaherferðum. Sem gagnvirk stofa (interactive agency) þá þurfum við að vita um allar breytingar á markaðinum og hvað samkeppnisaðilarnir eru að gera. Þetta tekur tíma og þarf oft að gerast utan venjulegs vinnutíma.“

Fura segir erfitt að gera upp á milli verkefna þegar hún er spurð hvert þeirra standi upp úr. Hún segir stærri verkefnin eftirminnilegust því þá eru vinnutarnir langar með sama teyminu. Vinna við heimasíðu Nike er eitt af þessum verkefnum en Fura hefur ásamt teymi sínu hannað og endurhannað þá heimasíðu. „Öll verkefni eru samt eftirminnileg í mínum huga því við erum alltaf að læra eitthvað nýtt og við erum alltaf að vinna með nýju fólki. Eitt af mínum fyrstu verkefnum hjá stofunni var gagnvirkt tónlistarmyndband fyrir NikeWomen. Rihanna var stjarnan og lagið var SOS.

Fura Ösp Jóhannesdóttir er í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Eftir vinnu sem kom út með Viðskiptablaðinu í dag. Í blaðinu segir Fura frá því hvernig það er að vinna á stórri auglýsingastofu í New York og hvernig hún komst á þann stað sem hún er í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér.