„Ég veit ekki hvort það er mögulegt að fá kviðdóm í New York til þess að skera úr um það hvort brotið hafi verið gegn lögum um starfsemi fjármálafyrirtækja á Íslandi. Mér finnst þetta vægast sagt langsótt og raunar með nokkrum ólíkindum,“ segir Ragnar H. Hall sem er lögmaður Lárusar Welding fyrrverandi forstjóra Glitnis.

Slitastjórn Glitnis krefst um 258 milljarða í skaðabætur frá Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, fyrrum helsta hluthafa bankans, Þorsteini Jónssyni, stjórnarformanni bankans, Pálma Haraldssyni, kaupsýslumanni og fyrrverandi stjórnarmanni í FL Group, Jóni Sigurðssyni, fyrrverandi forstjóra FL Group og Stoða, Hannesi Smárasyni, fyrrverandi forstjóra FL Group, og Lárusi Welding.

Ullu stórfelldu tjóni

Stefnan byggir öðru fremur á því að Jón Ásgeir og viðskiptafélagar hans hafi með sviksamlegum hætti „rænt bankann innan frá“, eins og orðrétt segir í stefnu, og þannig valdið bankanum, hluthöfum og kröfuhöfum stórfelldu tjóni.

Það hefur vakið athygli að málið er höfðað í New York í Bandaríkjunum. „Mér finnst það mjög skrýtið að ógjaldfær banki á Íslandi ætli að stefna fyrrum stjórnendum bankans, og eftir atvikum fleirum, í öðrum heimsálfum fyrir að hafa brotið gegn íslenskum lögum. Ég veit ekki dæmi þess að þetta hafi gerst áður og tel að þetta sé einsdæmi,“ segir Ragnar.