Aðalmeðferð í bótamáli Frigusar II gegn Lindarhvoli og íslenska ríkinu fór fram í vikunni í Héraðsdómi Reykjavíkur. Fjögur vitni í málinu staðfestu að Steinar Þór Guðgeirsson, sem er einnig lögmaður Lindarhvols og íslenska ríkisins í málinu, Þórhallur Arason, Haukur C. Benediktsson og Esther Finnbogadóttir hefðu öll hittst í Seðlabankanum fyrir aðalmeðferðina. Þá staðfestu þau einnig að Ása Ólafsdóttir, hæstaréttardómari og vitni í málinu, hefði tekið þátt í fundinum í gegnum síma.

Á sínum tíma sátu Þórhallur, Haukur og Ása öll í stjórn Lindarhvols og Esther í varastjórn, en í dag er hún fyrirsvarsmaður félagsins. Steinar Þór gengdi sérstöku ráðgjafahlutverki fyrir stjórn Lindarhvols og sagðist í vitnaframburði sínum hafa verið fenginn til verksins vegna þekkingar sinnar.

„Ég hef ágætis þekkingu á málefnum sem snúa að stöðugleikaeignunum. Ég sá meðal annars um samninga við slitabúin fyrir Seðlabanka Íslands, gerði þá samninga og sá um samningagerð. Ég sá um framsal á stöðugleikaeignunum til ríkisins,“ sagði Steinar Þór, í Héraðsdómi Reykjavíkur á miðvikudag.

Ég veit ekki hvort lögmaðurinn áttar sig á því hversu alvarlegt þetta er, að funda með nokkrum vitnum.

Nástaða Steinars Þórs við málið hefur vakið athygli, en auk þess að vera vitni í málinu er hann lögmaður stefndu. Við undirbúning aðalmeðferðar úrskurðaði héraðsdómur að Steinar Þór skyldi láta í té skýrslu sína fyrir dómi sem vitni í málinu áður en skýrslutökur af aðilum og öðrum vitnum færu fram.

Lykilvitni einnig lögmaður stefndu

Í málflutningi sínum í gær kom Arnar Þór Stefánsson, lögmaður Frigusar, inn á það „furðuástand“ sem ríki vegna stöðu Steinars Þórs sem vitnis. „Svo verður að hafa nokkur orð um það að lykilvitni í málinu sé líka lögmaður stefndu, því þá er vitnið Steinar Þór búinn að lesa öll dómskjölin og getur því hagað sínum framburði eftir því sem hentar. Þá er vitnaframburðurinn laskaður. Þetta heilaga atriði sem vitnaframburður er,“ sagði Arnar Þór.

Hann hélt áfram og gerði fund vitnanna í Seðlabankanum að umtalsefni sínu. „Svo kom úr dúrnum að Steinar Þór var búinn að funda með hinum vitnunum - stjórn Lindarhvols. Ég veit ekki hvort lögmaðurinn áttar sig á því hversu alvarlegt þetta er, að funda með nokkrum vitnum. Þá líklegast að rifja upp og fara yfir framburðina fyrir dómi,“ sagði Arnar Þór.

Í málflutningi sínum sagði Steinar Þór eina af ástæðum fundarins vera aldur og heilsu Þórhalls Arasonar, því hafi verið mikilvægt að rifja upp málsatvik með honum.