Vigdís Hauksdóttir segir það umhugsunarefni hversu erfitt sé að gera breytingar hjá hinu opinbera. Stofnanir spyrni við þeim til að viðhalda óbreyttu ástandi, jafnvel þó að breytingarnar yrðu til góðs fyrir almenning. Þetta kom fram í hádegisfréttum á Bylgjunni.

Nefnir hún í þessu samhengi að undarlegt sé að 20 upplýsingafulltrúar starfi hjá hinu opinbera „þegar opinberar stofnanir eiga bara að framfylgja lögum í landinu," segir Vigdís.

Spila með fjölmiðla

Þá sagði Vigdís að stofnanir nýttu sér gjarnan fjölmiðla til að vekja upp samúð meðal almennings þegar til stæði að gera breytingar eða draga úr fjárframlögum. Innt eftir nánari skýringum á því við hvað hún ætti sagðist hún ekki vilja taka tiltekin dæmi. „Ég ætla ekki að taka nein sérstök dæmi því þá verður allt vitlaust eins og þú veist," segir Vigdís í samtali við fréttamann Bylgjunnar.

Hún benti þó á að dæmi um slíkt væru allmörg og auðvelt væri að átta sig hver þau væru ef farið væri yfir málefni líðandi stundar í huganum. Hvatti hún fjölmiðlamenn og aðra til að velta því fyrir sér.