Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, lagði fram frumvarp til laga um náttúrupassa á Alþingi í dag. Málið gekk til fyrstu umræðu og hlaut harða gagnrýni stjórnarandstöðu.

Meðal þeirra sem tóku til máls var Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, en hún lýsti yfir efasemdum með ágæti náttúrupassans. Jafnframt gagnrýndi hún að frumvarpið gerði ekki ráð fyrir því að einkaaðilum yrði bannað að innheimta gjald af ferðamönnum á eignarlandi þeirra.

"En hvað varðar það að fá einkaaðila til liðs við þetta held ég að það sé auðvitað stórt umhugsunarefni ef þetta fyrirkomulag verður ofan á og Alþingi samþykkir að koma á gjaldtöku í gegnum náttúrupassa að hér verði áfram heimilt að taka gjald út um allt land af hálfu einkaaðila og þar með verði í raun og veru ekkert samræmt gjaldtökukerfi," sagði Katrín á Alþingi.