Høgni Hoydal, sjávarútvegsráðherra Færeyja, furðar sig á þeirri stöðu sem komin er upp í samningaviðræðum Íslands og Færeyja um gagnkvæmar fiskveiðiheimildir, og ekki síður hvernig íslensk stjórnvöld hafa sagt frá gangi viðræðnanna. Hann mótmælir því fyrir hönd færeyskra stjórnvalda að fiskveiðisamningur þjóðanna hafi verið felldur úr gildi. Þetta kemur m.a. fram í texta fréttabréfs, eins og það er kallað, sem fjölmiðlum var sent á fimmta tímanum. Frá þessu greina Fiskifréttir en lesa má bréfið í heild sinni á vef þeirra.

Bréfið er kallað svar sjávarútvegsráðherra Færeyja „varðandi stöðuna sem upp er komin um fiskveiðisamninga“ þjóðanna en Færeyingar segjast ekki leggja fram nýjar né auknar kröfur við samningagerðina.

Í bréfinu segir meðal annars: „Ísland hefur nú að auki tekið þá óvenjulegu og ólöglegu ákvörðun að afturkalla þær heimildir sem færeysk skip hafa til loðnuveiða við Ísland fram til 30. apríl 2018 samkvæmt samningi milli sjávarútvegsráðherra landanna frá 16. janúar 2017. Þessi samningur hefur verið formlega staðfestur í bréfaskiptum milli utanríkisráðherra landanna, sem hluti af fiskveiðisamningnum milli landanna fyrir árið 2017.“

Þá er einnig haft eftir Høgna í fréttabréfinu að Færeyingar gangi til samningaviðræðna nú eins og áður í góðum anda.  „Samningaviðræður milli bræðraþjóða byggjast á óskum frá báðum löndunum og vilja til að finna lausnir og samninga, sem eru báðum aðilum gagnlegir – og sem greiða úr áður óleystum málum sem upp koma á ný. Við Færeyingar göngum einnig nú til samningaviðræðna á venjulegan hátt og í góðum anda,“ er segir Høgni.