Íslandsbanki sker sig töluvert úr meðal greiningaraðila með mun bjartsýnni spá sinni um atvinnuleysisþróun næstu ár. Bankinn spáir 5,3% atvinnuleysi á næsta ári og 3,6% árið 2023, en meðalspá annarra greiningaraðila er 5,7% atvinnuleysi árið 2023.

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segist furða sig á því hversu þrálátu atvinnuleysi aðrir greiningaraðilar spái. „Ein lykilforsendan í okkar spá er að þau störf sem töpuðust á síðasta ári hafi að miklu leyti verið í ferðaþjónustunni, sem þegar eru merki um að sé að hrista af sér slenið og farið sé að endurráða og jafnvel leita að nýju fólki í einhverjum tilfellum.“

Fljótt að segja til sín þegar greinin nær sér á strik
„Ég tel ekki að við sitjum föst með atvinnuleysi yfir 6%, þótt það gæti vissulega gengið hægt að ná því alveg niður í það sem við eigum að venjast,“ segir Jón Bjarki og bendir á að þótt spá Íslandsbanka geri ekki ráð fyrir nema þriðjungi af ferðamannafjölda ársins 2019 í ár, segi það ekki alla söguna, þar sem langstærsti hluti þess verði á seinni helmingi ársins. „Umsvif ferðaþjónustunnar á seinni hluta ársins gætu orðið um eða yfir helmingur af því sem þau voru árið 2019.“

Þegar best hafi látið á velmektarárum ferðaþjónustunnar hafi vel á þriðja tug þúsunda manna unnið beint eða óbeint í greininni. „Það segir sig því svolítið sjálft í okkar huga að um leið og greinin er komin á þokkalegt skrið eru þarna nokkur þúsund störf sem þarf að fylla í. Það er því fljótt að segja til sín þegar grein sem var með slíkan fjölda í vinnu í eðlilegu árferði fer að ná sér á strik,“ segir hann og bætir við að við beinar ráðningar ferðaþjónustunnar bætist afleidd áhrif þegar almennt fer að lifna yfir hagkerfinu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .