Félagsmálaráðherra eykur óróleika á vinnumarkaði þegar hún segir að svigrúm sé fyrir launahækkanir umfram þrjú prósent, að sögn Þorsteins Víglundssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins. Eygló Harðardóttir sagði í gær að búið sé að lækka skatta á ferðaþjónustuna, á sjávarútveginn og á atvinnulífið almennt. Þá sé vaxtmunur hjá bönkunum að aukast. Ef atvinnulífið sé ekki að skila þessum skattalækkunum og vaxtamuninum áfram til heimilanna hljóti verkalýðshreyfingin að sækja sér hærri laun til atvinnurekenda.

Í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins segist Þorsteinn furða sig á þessum ummælum Eyglóar. Hann segir að gera verði þá kröfu til stjórnvalda að samkvæmni sé í því hvernig ráðherrar komi fram í ljósi þeirrar áherslu sem ríkisstjórnin hafi lagt á að viðhalda stöðugleika. Þarna hafi Eygló verið að tala gegn því sem fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, hefur sagt.