*

þriðjudagur, 20. ágúst 2019
Innlent 8. september 2018 13:09

Furðar sig á ummælum Skúla

Stjórnarformaður Icelandair segir ummæli Skúla Mogensen um úrelt viðskiptamódel Icelandair sérstök því Wow air byggi á sama viðskiptamódeli.

Ingvar Haraldsson
Úlfar Steindórsson, stjórnarformaður Icelandair.
Haraldur Guðjónsson

Úlfar Steindórsson, stjórnarformaður Icelandair Group, segir samanburð milli Icelandair og Wow air ósanngjarnan gagnvart báðum flugfélögum. 

Wow air svipi að mörgu leyti til frumkvöðlafyrirtækis. „Árið 2016 var mjög gott ár hjá þeim en það ár gekk rosalega vel hjá öllum í flugrekstri. Síðan lenda þeir í andstreymi árið 2017 og skila tapi þá og því sem af er þessu ári. Við skilum hagnaði 2017 en þetta ár hefur verið mjög erfitt eins og hefur komið fram.“ Eftir fjárhagslega endurskipulagningu Icelandair Group á árunum 2009- 2011 hafi markið verið sett á að efla fjárhag félagsins til þess að það gæti tekist á við sveiflur sem óhjákvæmilega fylgi flugrekstri.

„Það verður að segjast alveg eins og er að staða félagsins sem slík er góð með sterkt eigið fé og sterka sjóðsstöðu. Ef við berum okkur sama við Wow hvað þetta varðar er alveg ljóst að þeir eru með veika eiginfjárstöðu og lága sjóðsstöðu. Að bera félögin saman út frá stöðunni eins og hún er núna er ekki sanngjarnt gagnvart Iceland-air frekar en Wow. Þeir eru með allt aðra nálgun og vinna þetta út frá allt öðrum hætti. Þar af leiðandi er mjög sérstakt þegar verið er að tala um að íslensku flugfélögin séu í vanda og hvað ríkisstjórnin ætli að gera og svo framvegis. Þetta er bara tal sem er órökrétt,“ segir Úlfar.

Skúli Mogensen, stofnandi og forstjóri Wow air, hefur verið gjarn á að gagnrýna Icelandair fyrir að vera rekið eftir úreltu viðskiptamódeli. „Það er mjög sérstakt þvi að hann er með nákvæmlega sama viðskiptamódel. Hann afritaði Icelandair módelið sem er ekki skrýtið því að það gekk mjög vel. En ef að viðskiptamódel okkar er úrelt þá tók hann upp úrelt viðskiptamódel,“ segir Úlfar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.