Fréttamiðillinn Financial Times hefur sýnt íslensku efnahagslífi óvenjumikinn áhuga að undanförnu og gerði ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands meðal annars skil í gær. Það hefur hins vegar vakið athygli manna að fjölmiðillinn setur lækkunina í samhengi við nýlegar fréttir um að árstíðarleiðrétt landsframleiðsla hafi dregist saman á Íslandi um 1,9 % milli fjórða ársfjórðungs og fyrsta ársfjórðungs 2017.

Ýmsir sérfræðingar landsins eru enda á þeirri skoðun að lítið samhengi sé þarna á milli. Fyrirsögn greinar Financial Times var upphaflega „Iceland cuts rates after economy falls into contraction“ sem gæti útfærst á íslensku sem „Ísland lækkar vextir eftir samdrátt í efnahagslífinu“. Eftir að hafa borist athugasemdir frá Seðlabanka Íslands breytti miðillinn hins vegar fyrirsögninni í „ Iceland cuts rates to two year low “, auk þess að uppfæra greinina.

Financial Times veitti fyrrnefndum fréttum af samdrætti á landsframleiðslu mikla athygli þegar þær bárust þann 12. júní sl. enda þóttu þær sérstaklega áhugaverðar í ljósi mikils hagvaxtar á Íslandi. Í frétt miðilsins sem byrjar einfaldlega á orðinu; „Ouch“ var bent á að samdrátturinn á milli ársfjórðunga hefði verið sá fyrsti í fjóra ársfjórðunga og sá versti frá árinu 2014.