„Þetta eru mjög góðar fréttir,“ segir Eva B. Helgadóttir, lögmaður ALC, um dóm Hæstaréttar í máli félagsins gegn Isavia. Dómurinn var kveðinn upp fyrr í dag en með honum var úrskurður Landsréttar ómerktur og málinu vísað á ný til réttarins til löglegrar meðferðar.

Líkt og kunnugt er varðar málið aðfararbeiðni ALC til að fá afhenta vél sína sem kyrrsett hefur verið á Keflavíkurflugvelli, af Isavia, til tryggingar tveggja milljarða skuld Wow við flugrekandann. Umrædda vél hafði Wow á leigu hjá ALC.

Héraðsdómur hafnaði beiðni ALC um afhendingu með aðför en í rökstuðningi réttarins kom fram að vélin gæti aðeins tryggt þá notkunargjöld sem stöfuðu af notkun þeirrar tilteknu vélar, alls um 80 milljónir.

Isavia kærði þá niðurstöðu, krafðist staðfestingar á úrskurðinum en á öðrum forsendum. Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms hvað aðförina varðar en á öðrum forsendum og taldi hana geta tryggt skuldina alla. Hæstiréttur ómerkti aftur á móti úrskurð Landsréttar þar sem að aðalkrafa Isavia og varakrafa ALC voru þær sömu. Í ljósi þess samþykkis hefði borið að staðfesta úrskurðinn án þess að krukka í forsendum hans.

„Við gerðum strax athugasemdir við þetta réttarfar þegar Isavia ákváð að kæra málið með þessum hætti til og furðuðum okkur á því þegar Landsréttur tók upp á því að hlusta á það,“ segir Eva.

Umrædd vél hefur verið kyrrsett í þrjá mánuði á Keflavíkurflugvelli en ALC hefur nú þegar fundið nýjan leigjanda að vélinni. Leigutekjur tapast því dag hvern sem vélin er á vellinum en tjónið nemur tugum milljóna á mánuði hverjum.

„Þessi kæra Isavia á úrskurði héraðsdóms hefur valdið fimm vikna töf á því að umbjóðandi minn fái að nýta eign sína. Allan tímann hefur félagið stillt málinu upp þannig að það hafi ekki gert neitt rangt en það hefur kostað þetta allt,“ segir Eva.

Sem fyrr segir var úrskurður Landsréttar ómerktur og málinu vísað á ný til réttarins. Að sögn Evu getur Isavia ekki klætt mál sitt í annan búning í síðari atrennu. Eftir stendur því aðeins að taka afstöðu til málskostnaðar.

„Eina efnislega niðurstaðan í málinu er því úrskurður Héraðsdóms Reykjaness um að það megi aftra för vélarinnar þar til notkunargjöld vegna hennar hafa verið greidd. Það gerði umbjóðandi minn nærri um leið og sá úrskurður féll,“ segir Eva. ALC hennar sé nú að velta fyrir sér næstu skrefum í málinu og hvort rétt sé að höfða frekari mál á hendur Isavia.