Félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga valdi í gær, á þekkingardeginum, þekkingarfyrirtæki ársins og viðskiptafræðing ársins. CCP var valið þekkingarfyrirtæki ársins, en Marel og Össur voru einnig tilnefnd. Vilhjálmur Bjarnason var valinn viðskiptafræðingur ársins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá FVH.

Þekkingarfyrirtæki ársins

Í tilkynningunni er vísað í niðurstöðu dómnefndarinnar um þekkingarfyrirtæki ársins, og þar segir: „CCP var stofnað árið 1997 og er tölvuleikurinn Eve online ein þekktasta afurð fyrirtækisins. En sá tölvuleikur hefur verið á markaði síðan 2003 og í dag eru um 300.000 notendur leiksins. Fyrirtækið hefur vaxið ört og árið 2000 störfuðu hjá fyrirtækinu 16 starfsmenn, átta árum seinna var fjöldi starfsmanna kominn í 369. Hér á landi eru um 220 starfsmenn, 60 í Kína og 100 í Bandaríkjunum.  Starfsmenn eru af 20 þjóðernum og tungumálin sem þeir tala um 30.

CCP er í fremstu röð í heiminum í dag á sínu sviði og skarar fram úr á mörgum sviðum s.s. í notkun Grafíkvéla sem geta framkallað háþróaða tölvugrafík sem getur keyrt í rauntíma. Einnig hefur CCP verið leiðandi í því að þróa aðferðir til þess að stuðla að samþættri þróun hugbúnaðar með því að fá notendur til þess að taka virkan þátt í þróun netsamfélagsins. Í þessu sambandi hefur CCP stofnað lýðræðislega kjörið fulltrúaráð notenda gagnvart CCP. Með þessu geta notendur vörunnar stutt við frekari þróun vörunar.

Nýsköpun er lykillinn í allri starfsemi CCP. Fyrirtækjamenning CCP er einstök, áhersla er lögð á skapandi lærdómsumhverfi, umhyggju starfmanna og viðskiptavina. Traust, vinátta og liðsvinna er rauður þráður í fyrirtækjamenningu CCP. Starfsmenn CCP njóta sjálfstæðis í starfi og hafa mikið umboð til athafna. CCP stendur sig vel í yfirfærslu og hagnýtingu þekkingar til nýsköpunar.

Til að ýta undir nýsköpun og virkjun starfsmanna hefur CCP tekið upp aðferðafræði sem þeir kalla SCRUM, þar sem mörg þverfræðileg teymi sem skipuleggja sig sjálf hanna tölvuleiki sem byggja á hugmyndum fyrirtækisins. Í þessu felst að vinna í hugbúnaðarverkefnum er vöruþróun frekar en framleiðsla. Það er einróma niðurstaða dómnefndar að CCP hljóti Þekkingarverðlaun Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga í ár.“

Viðskiptafræðingur ársins

Um valið á Vilhjálmi Bjarnasyni sem viðskiptafræðingi ársins segir þetta í fréttatilkynningunni um niðurstöðu dómnenfdar: „Vilhjálmur hefur verið óþreytandi síðustu árin við að vekja athygli á skorti á  upplýsingagjöf til minni hluthafa í rekstri almenningshlutafélaga á Íslandi. Hann hefur verið ötull við að gagnrýna harðlega marga þá sem voru í forystu útrásarinnar fyrir að gæta ekki að heildarhagsmunum hluthafa og fara ekki eftir viðurkenndum reglum í viðskiptum.

Vilhjálmur er sjálfum sér samkvæmur. Hann hefur þorað að fara á móti straumnum og haldið fast í sína sannfæringu án þess að bugast vegna mótbyrsins sem skoðanir hans mættu oft á tíðum á undanförnum árum.

Vilhjálmur hefur verið sannkölluð samviska íslenska hlutabréfamarkaðarins.  Hann hefur borið hag smárra fjárfesta fyrir brjósti og verið óþreytandi við að vekja athygli á því ef stórir hluthafar og stjórnir þeirra hafa ekki farið eftir reglum um góða stjórnunarhætti.  Hann hefur alltaf verið óhræddur við að spyrja óþægilegra spurninga og krefjast svara frá stjórnendum á hluthafafundum um þætti í rekstri félaganna sem hann taldi óeðlilega. Með þeim aðgerðum má segja að hann sé frumkvöðull og hafi staðið fyrir nýsköpun í eftirliti með viðskiptalífinu á Íslandi.

Það má segja að Vilhjálmur hafi verið löggan á hlutabréfamarkaðinum þegar kemur að stjórnunarháttum í fyrirtækjum.  Þegar partíið stóð sem hæst fannst mörgum partíljónunum hann vera gleðispillirinn sem eyðilagði partístemminguna. Nú þegar timburmennirnir hafa tekið völdin eru  partígestirnir farnir að sjá Vilhjálm í öðru og sanngjarnara ljósi.

Vilhjálmur á sér fjölmargar hliðar sem ekki gefst tími til að gera betur skil hér í dag, en landsmenn hafa fengið að kynnast fjölhæfni hans á skjánum þar sem hann hefur birst landsmönnum sem hafsjór af fróðleik í þættinum Útsvari sem fulltrúi Garðbæinga.

Vilhjálmur er vel að þessari viðurkenningu kominn.  Það var sama hvar dómnefnd bar niður, alls staðar voru menn sammála um að Vilhjálmur væri mjög verðugur þess að  vera viðskiptafræðingur FVH ársins 2008.“