Í tilefni af útgáfu nýrrar kjarakönnunar stendur Félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga (FVH) fyrir hádegisverðarfundi á Grand Hótel Reykjavík miðvikudaginn 7. desember 2011 sem ber yfirskriftina, „Er kominn tími til að panta gáminn? –hvað er framundan á atvinnumarkaði viðskiptafræðinga og hagfræðinga?“

Þetta kemur fram í tilkynningu frá FVH en félagið mun kynna niðurstöðu nýrrar kjarakönnunar meðal félagsmanna. Auk kjarakönnunar verður sjónum beint að atvinnumarkaði viðskiptafræðinga og hagfræðinga almennt.

„Atvinnuleysi er enn hátt og lítið bendir til þess að umsvif í atvinnulífi eða hagvöxtur aukist verulega á næstunni. Fjöldi fólks hefur leitað út fyrir landsteinana eftir atvinnutækifærum síðasta árið, einkum tækni- og hjúkrunarmenntað fólk,“ segir í tilkynningunni.

„Hver er staða viðskiptafræðinga og hagfræðinga? Er kominn tími til að panta gáminn og flytjast búferlum eða eru tækifæri framundan í íslensku atvinnulífi?“

Ræðumenn fundarins verða: Hilmar Garðar Hjaltason ráðgjafi hjá Capacent, Stefán Einar Stefánsson formaður VR og Landssambands íslenskra verzlunarmanna, Þorsteinn Víglundsson framkvæmdstjóri Samál og Gerða Björg Hafsteinsdóttir formaður kjaranefndar FVH. Sigríður Hallgrímsdóttir formaður fræðslunefndar FVH stýrir fundi og tekur á móti fyrirspurnum.

Fundurinn verður haldinn á Grand Hótel Reykjavík, miðvikudaginn 7. desember kl. 12:00 – 13:30.