Eigendur Iceland Express fengu útskrift af þeim símanúmerum sem Matthías Imsland, fyrrverandi forstjóri flugfélagsins hefur verið í sambandi við eftir að honum var sagt upp hjá félaginu um síðustu mánaðmót. Þetta kemur fram í lögbannsbeiðni Iceland Express gegn Matthíasi þar sem því er haldið fram að hann notfæri sér trúnaðarupplýsingar til að vinna að stofnun annars félags í flugrekstri.

Matthías Imsland - Iceland Express
Matthías Imsland - Iceland Express
© BIG (VB MYND/BIG)

Í lögbannskröfunni kemur fram að sem forstjóri hafi Matthías haft afnot af Blackberry-farsíma í eigu Iceland Express. Símann hafi hann meðal annars notað eftir að honum var sagt upp til að hringja í fyrrverandi samstarfsfólk sitt til að kanna hvort það geti hugsað sér að skipta um starf, viðskiptavini Iceland Express á Norðurlöndunum, í Þýskalandi og Frakklandi og ferðaþjónustuaðila hér á landi. Símanúmer innlendra ferðaþjónustuaðila og starfsmanna voru aðgreind með litum í útprenti yfir símtöl Matthíasar úr Blackberry-símanum.

Í lögbannskröfu Iceland Express kemur fram að þetta hafi verið brot á ráðningasamningi Matthíasar og hann ekki mátt fara í samkeppni við flugfélagið í tvö ár eftir að uppsagnarfrestur rennur út á næsta ári, eða til 1. apríl 2014.