*

mánudagur, 6. desember 2021
Innlent 4. janúar 2016 15:34

Fylgi flokka breytist lítið

Samkvæmt könnun Gallup myndi þriðjungur kjósa Pírata ef kosið væri í dag.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Afar litlar breytingar eru á fylgi stjórnmálaflokka milli mánaða. Fylgið hefur breyst um 0-1,2 prósentustig. Þetta kemur fram í könnun Gallup.

Þriðjungur kjósenda myndi merkja við Pírata ef gengið yrði til kosninga í dag. Þá myndi fjórðungur kjósa Sjálfstæðisflokkinn og 12% Framsóknarflokkinn.

Samfylkingin hlyti um það bil 10% atkvæða, og það sama má segja um Vinstri græna. Þá fengi Björt framtíð 4% atkvæða. Nær 5% segjast myndu kjósa aðra flokka en þegar eiga sæti á þingi.

10% segjast myndu skila auðu ef kosið væri í dag, meðan 11% neita að gefa upp afstöðu sína til kosninga.

Stuðningur við ríkisstjórnina minnkar um 3% milli mánaða, en rúmlega 36% þeirra sem afstöðu tóku segjast styðja hana. Þó er stuðningurinn á svipuðu róli og það hefur verið síðan í júní.