Fylgi flokka breytist lítið milli mánaða, eða um 0,3-1,4 prósentustig, að því er kemur fram í frétt um síðustu netkönnun Gallup á fylgi flokka ef gengið yrði til kosninga nú, sem gerð var dagan 30. september til 27. október 2019.

Næstum 23% þeirra sem taka afstöðu segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn færu kosningar til Alþingis fram í dag, en í síðustu könnun mældist fylgið 23,7%. Samfylkingin bætir við sig fylgi en það var 17,3% könnuninni en var 16,1% í september. Fylgi Samfylkingarinnar hefur verið á uppleið síðan í í júlí þegar það mældist 13,7%.

Fylgi Vinstri grænna jókst einnig milli mánaða og var 13,4% miðað við 12% í mánuðinum á undan. Þá bætti Framsóknarflokkurinn lítillega við fylgi sitt sem mældist nú 8,2% miðað við 7,9% í september.

Aðrir flokkar töpuðu fylgi milli mánaða en um afar litla breytingu er þó að ræða og aldrei meira en sem nemur vikmörkum könnunarinnar sem er á bilinu 0,1 - 1,4%. Mest tapaði Miðflokkurinn sem mældist með 11,5% fylgi miðað við 12,3% í september. Aðrir flokkar töpuðu minna fylgi.

Nær 12% segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa og 10% taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp. Tæplega 51% þeirra sem taka afstöðu segist styðja ríkisstjórnina.