Framsóknarflokkurinn er með 22% fylgi í nýjustu skoðanakönnun Gallup. Þetta er átta prósentustigum meira en fyrir mánuði. Fylgi flokksins hefur ekki verið meira síðan árið 1996 og gæti hann fengið 16 menn á þing ef gengið yrði til kosninga nú og yrði niðurstaðan í samræmi við skoðanakönnunina.

Sjálfstæðisflokkurinn nýtur 30% fylgis í sömu könnun og er það sex prósentustigum minna en áður. Flokkurinn fengi 21 mann á þing ef gengið yrði til kosninga. Þá er Björt framtíð með 16% fylgi. Það mældist 19% í síðustu könnun. Flokkurinn fengi 11 menn á þing.

Ríkisútvarpið segir að miðað við niðurstöður skoðanakönnunarinnar gæt Sjálfstæðisflokkur myndað tveggja flokka stjórn með Framsóknarflokki eða Bjartri framtíð eftir kosningar miðað við niðurstöður skoðanakönnunarinnar.

Ríkisstjórnin með lítið fylgi

Á sama tíma og fylgi Framsóknarflokksins eykst dregur úr fylgi við stjórnarflokkana. Samfylkingin nýtur 15% fylgis og næði 10 mönnum á þing. Þá nýtur VG 7% fylgis og fengi 5 menn á þing.