Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn gætu myndað meirihluta með 36 þingmönnum yrði kosið í dag samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar Fréttablaðsins og Stöðvar 2 sem gerð var í gærkvöldi og fyrrakvöld.

Framsókn tapar fylgi frá könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2 sem gerð var í síðustu viku. Flokkurinn mælist nú með stuðning 25,9 prósenta kjósenda og 19 þingmenn. Sjálfstæðisflokkurinn tapar einnig fylgi frá síðustu könnun og mælist með 23,8 prósent og 17 þingmenn.

Vinstri græn auka við fylgi sitt frá síðustu könnun og mælast nú með 10,4 prósent atkvæða og sjö þingmenn. Stuðningur við Samfylkinguna stendur í stað, 13,3 prósent ætla að kjósa flokkinn sem myndi skila honum 10 þingmönnum. Björt framtíð fengi 8,1% og sex þingmenn og Píratar 6,3% og fjóra þingmenn.