Fylgi Sjálfstæðisflokksins dregst lítillega saman en fylgi Framsóknarflokksins eykst, samkvæmt nýrri könnun MMR . Stuðningur við ríkisstjórnina mælist nú 36,2% og lækkar um tæp tvö prósentustig frá síðustu mælingu.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist nú 24,1%, samanborið við 25,0% í síðustu könnun. Fylgi Framsóknarflokksins eykst hins vegar um 2,3 prósentustig og mælist nú 11,8%.

Fylgi Bjartrar framtíðar mælist 19,2%, samanborið við 21,8% í síðustu könnun. Fylgi Samfylkingar mælist 17,0% og Vinstri-grænna 11,6%. Fylgi þessara flokka stendur nánast í stað frá síðustu könnun. Píratar bæta við sig og mælast með 9,6% fylgi, borið saman við 8,3% í síðustu könnun. Fylgi annarra flokka mældist undir 2%.