Fylgi Pírata eykst um tæplega þrjú prósentustig milli mánaða, samkvæmt nýrri netkönnun Capacent Gallup er framkvæmd var dagana 27. nóvember til 31. desember 2014. Nær 11% þeirra sem tóku afstöðu segjast myndu kjósa flokkinn færu kosningar til Alþingis fram í dag.

Liðlega 27% segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn samkvæmt könnuninni, fimmtungur segist myndi kjósa Samfylkinguna og rúmlega 11% Framsóknarflokkinn.

Fylgi Vinstri grænna minnkar um tæplega tvö prósentustig og mælist flokkurinn nú með 12,8%, en Björt framtíð hefur sama hlutfall. Liðlega 5% segjast myndu kjósa aðra flokka en nú eiga sæti á Alþingi.

Rúmlega 11% segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa ef kosið yrði til Alþingis í dag og rösklega 13% taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp.

Stuðningur við ríkisstjórnina eykst um 0,3% milli mánaða, en tæplega 37% þeirra sem tóku afstöðu segjast styðja hana.