Framsóknarflokkurinn er nú næst minnsti stjórnmálaflokkurinn á Alþingi, á eftir Bjartri framtíð. Fylgi Framsóknar mælist nú 8,7%, en var 12,4% í síðustu könnun sem var birt þann 18. mars. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR , en hún var framkvæmd 4. og 5. apríl.

Fylgi Pírata mælist nú 36,7%. Fylgi flokksins lækkar milli kannana, en það var 38,3% í síðustu könnun. Flokkurinn er þó enn lang stærsti flokkurinn á Alþingi. Sjálfstæðisflokkur er næst stærsti stjórnmálaflokkurinn, hann mælist nú með 22,5% fylgi, en var með 22,9% í síðustu könnun.

Bæði Samfylking og Vinsti grænir bæta við sig fylgi. Vinstri grænir mælast með 12,8% en voru með 9,3% í síðustu könnun. Samfylking mælist nú með 9,9% en voru með 9,2% í síðustu könnun. Björt framtíð myndi nú ná manni inn á þing, en flokkurinn mælist nú með yfir 5,8%, en voru með 3,4% í síðustu könnun.

Stuðningur við ríkisstjórnina mælist nú 26%, en hann var 32,4% við síðustu könnun og 32,7% í könnuninni þar áður. Fylgi ríkisstjórnar frá hruni hefur aðeins þrisvar sinnum mælst lægra. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks mældist með 24,2% þann 21. janúar 2009. Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna mældist með 22,8% í október 2010 og síðan 24,6% í apríl 2013.