Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefur ekki orðið til þess að stuðningur við flokkinn aukist. Þvert á móti hefur fylgi flokksins dalað undanfarin mánuð, en Framsóknarflokkurinn virðist á mikilli siglingu, samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar sem gerð var fyrir Fréttablaððið.

Sjálfstæðisflokkurinn er með 29 prósent fylgi. Stuðningurinn hefur dalað um þrjú prósentustig frá síðustu könnun en er þó vel yfir 23,7 prósenta kjörfylgi flokksins. Sjálfstæðisflokkurinn fengi samkvæmt niðurstöðu könnunarinnar 21 þingmann, en flokkurinn er með 16 í dag.

Framsóknarflokkurinn mælist í mikilli uppsveiflu og kemst nærri því að slá Sjálfstæðisflokkinn út sem stærsti flokkurinn. Alls styðja 26,1 prósent landsmanna Framsóknarflokkinn. Flokkurinn fékk stuðning 14,8 prósenta í síðustu kosningum og níu þingmenn kjörna en fengi nítján þingmenn samkvæmt könnuninni.

Stuðningur við Samfylkinguna eykst lítillega milli kannana. Hann mælist nú 12,8 prósent. Fylgið hefur hrunið af flokknum frá síðustu kosningum þegar 29,8 prósent studdu Samfylkinguna. Flokkurinn fengi níu þingmenn yrðu niðurstöður kosninga í takt við könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2, en fékk 20 í síðustu kosningum.

Vinstri græn virðast vera að ná vopnum sínum eftir að fylgið fór niður í 7,4 prósent um miðjan janúar. Nú segjast 11,8 prósent myndu kjósa flokkinn yrði gengið til kosninga nú. Vinstri græn fengju átta þingmenn samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar, en fengu fjórtán í kosningunum 2009.

Björt framtíð er eina nýja framboðið sem kemst yfir 5% múrinn í könnuninni og mælist með 8,7% fylgi, sem er langt undir þeim 16,4% sem flokkurinn mældist með í könnun Fréttablaðsins í janúarlok.