Fylgi Framsóknarflokksins og Vinstri grænna eykst lítillega en fylgi Sjálfstæðisflokksins dalar aðeins frá fyrri mánuði, samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Capacent. Ekkert nýju framboðanna fjögurra nær manni á þing.

Frá þessu var greint í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í kvöld.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með þrjátíu og sex prósenta fylgi. Það er lækkun um eitt prósentustig frá síðasta mánuði. Samfylkingin stendur í stað, með tuttugu og eins prósents fylgi en var með þrjátíu prósent í síðustu kosningum. Vinstri græn bæta við sig rúmu prósentustigi frá síðasta mánuði og fá nú ríflega þrettán prósent.

Framsóknarflokkurinn bætir við sig einu og hálfu prósentustigi en flokkurinn mælist nú með nærri fjórtán prósenta fylgi. Nýju framboðin fjögur, Björt framtíð, Dögun, Hægri grænir og Samstaða mælast með töluvert minna fylgi og ekkert þeirra nær þeim fimm prósentustigum sem þarf til að koma manni á þing.

Fylgi við ríkisstjórnina eykst fjórða mánuðinn í röð en nú segjast þrjátíu og fjögur prósent styðja hana. Liðlega fjórtán prósent svarenda taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp og rúmlega þrettán prósent segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa ef kosið yrði til Alþingis í dag.

Sjá nánar á vef RÚV.