Fylgi Sjálfstæðisflokksins flokkað eftir kjördæmum.
Fylgi Sjálfstæðisflokksins flokkað eftir kjördæmum.
© vb.is (vb.is)

Á meðan Sjálfstæðisflokkurinn sækir töluverðan hluta af fylgi sínu í Suðurkjördæmi mælist flokkurinn töluvert minna fylgi í Norðausturkjördæmi.

Þannig er fylgi flokksins í Norðausturkjördæmi nokkuð undir fylgi flokksins á landsvísu samkvæmt nýlegri skoðanakönnun.

Í nýlegum þjóðarpúls Gallup mældist Sjálfstæðisflokkurinn með tæplega 34% fylgi á landsvísu og er samkvæmt því stærsti flokkur landsins. Viðskiptablaðið hefur undir höndum niðurstöðu Þjóðarpúlsins eftir einstaka kjördæmum.

Á meðan fylgi Sjálfstæðisflokksins á landsvísu mælist um 34% mælist flokkurinn aðeins með tæplega 26% fylgi í Norðausturkjördæmi. Kristján Þór Júlíusson, formaður framtíðarnefndar flokksins, er oddviti flokksins í kjördæminu.

Sem fyrr segir mælist flokkurinn með langmest fylgi í Suðurkjördæmi en þar mælist flokkurinn með 43% fylgi. Ragnheiður Elín Árnadóttir er oddviti flokksins í kjördæminu. Enginn flokkur mælist með jafn mikið fylgi í einu kjördæmi og Sjálfstæðisflokkurinn gerir í Suðurkjördæmi.

Þá mælist flokkurinn með 36,5% fylgi í Suðvesturkjördæmi, kjördæmi Bjarna Benediktssonar, formanns flokksins.

Í Reykjavíkurkjördæmunum mælist Sjálfstæðisflokkurinn með tæplega 33% fylgi í Reykjavík suður en 30% fylgi í Reykjavík Norður. Loks mælist flokkurinn með tæplega 34% fylgi í Norðvesturkjördæmi.