Um 42% þátttakenda í könnum MMR, sem unnin var fyrir Viðskiptablaðið, svara því játandi hvort þeir myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn ef Hanna Birna Kristjánsdóttir væri formaður flokksins og myndi leiða hann í kosningum. Um 58% aðspurðra svara spurningunni neitandi.

Fjallað er um könnunina í Viðskiptablaðinu í dag en á vef blaðsins í gærkvöldi kom fram að um 44% þeirra sem ætlan sér að kjósa Framsóknarflokkinn í komandi kosningum myndi kjósa Sjálfstæðisflokkinn ef Hanna Birna væri formaður flokksins. Rétt er að geta þess að um 97% þeirra sem segjast styðja Sjálfstæðisflokkinn myndu kjósa hann ef Hanna Birna væri formaður, sem vart kemur á óvart. Í umfjöllun Viðskiptablaðsins í dag er aftur á móti fjallað um það hvaðan Hanna Birna myndi sækja aukið fylgi fyrir Sjálfstæðisflokkinn ef hún væri formaður, þ.e. frá hvaða flokkum.

Í könnun MMR um fylgi flokkanna, sem birt var fyrr í vikunni, mældist Sjálfstæðisflokkurinn með um 21% fylgi og hefur aldrei mælst lægra í könnunum MMR. Í desember sl. mældist flokkurinn með rúmlega 37% fylgi en síðan þá hefur fylgi flokksins leitað hratt niður á við. Á sama tíma hefur fylgi Framsóknarflokksins aukist allverulega. Flokkurinn mældist með um 30% fylgi í könnun MMR í vikunni en var með tæplega 15% fylgi í desember sl.

Nánar er fjallað um könnunina í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.

Úr könnun MMR fyrir Viðskiptablaðið þann 11.04.13
Úr könnun MMR fyrir Viðskiptablaðið þann 11.04.13
© vb.is (vb.is)