Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 35% fylgi í júlímánuði samkvæmt nýrri könnun Capacent og hækkar fylgi flokksins því um tvö prósentustig frá því í júní. Fylgi flokksins hefur ekki mælst svona hátt síðan í apríl 2008.

Þetta kemur fram á vef Capacent þar sem niðurstaða könnunarinnar er birt.

Fylgi Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs heldur áfram að minnka og minnkar nú um tvö prósentustig milli mánaða og myndu liðlega 19% kjósenda greiða flokknum atkvæði færu kosningar til Alþingis fram í dag. Þetta er sama hlutfall og sagðist ætla að kjósa flokkinn í júlí 2009.

Fylgi annarra flokka breytist lítið milli mánaða. Liðlega 24% segjast ætla að kjósa Samfylkinguna færu kosningar fram í dag, sem er aukning um prósentustig milli mánaða. Fylgi Framsóknarflokksins og Hreyfingarinnar mælist nánast það sama í júní og júlí en 12% segjast ætla að kjósa Framsóknarflokkinn og tæplega 4% Hreyfinguna.

Þá fer stuðningur við ríkisstjórnina einnig minnkandi en aðeins 38% aðspurðra segjast styðja ríkisstjórnina. Stuðningur við ríkisstjórnina hefur farið minnkandi síðustu mánuði en í apríl sl. var stuðningur við ríkisstjórnina um 47%.

Sjá nánar á vef Capacent