Stjórnarflokkarnir bæta báðir við sig fylgi samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins sem framkvæmd var 12. og 13. nóvember, eða eftir að niðurstöður skuldaniðurfellingarinnar voru kynntar almenningi.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist nú með 32,9% fylgi, en í síðustu könnun Fréttablaðsins fékk hann 30,3%. Framsóknarflokkurinn bætir sömuleiðis við sig og mælist nú með 12,8% samanborið við 8,7% síðast.

Samfylkingin fer úr 23,1% fylgi í 19,2%. Björt framtíð fengi 12,5% stuðning, Vinstri grænir 9,7% og Píratar 9,2%.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir í samtali við Fréttablaðið að hann finni fyrir vaxandi stuðningi við þær áherslur sem flokkurinn beiti sér fyrir. Telur hann vera ánægju með útfærslur skuldaaðgerðanna, sem augljóslega sé eitt af stærri málum ríkisstjórnarinnar.