Fylgi Vinstri grænna mælist 9,1% í nýjum þjóðarpúlsi Gallup og hefur ekki verið minna síðan í september 2003. Fylgi Samfylkingar minnkar um þrjú prósentustig milli kannana og mælist 19,1% en greint er frá niðurstöðum könnunarinnar í fréttum Ríkisútvarpsins.

Björt framtíð eykur fylgi sitt um fjögur prósentustig og mælist nú með tólf komma þrjú prósent í nýjum þjóðarpúlsi Gallups. Stjórnarflokkarnir virðast tapa fylgi til Bjartrar framtíðar. Litlar breytingar eru á fylgi annarra framboða. Ríflega þrjátíu og sex prósent segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn færu kosningar til Alþingis fram í dag og liðlega þrettán prósent Framsóknarflokkinn.

Dögun, Hægri grænir og Píratar mælast með um eða undir þremur prósentum en Samstaða fær aðeins rétt ríflega eitt prósent.