Stuðningur við ríkisstjórnina mældist nú 34,5% en mældist 35,8% í síðustu mælingu sem lauk þann 21. apríl síðastliðinn og 38,7% í könnun sem lauk 1. Apríl. Könnunin var gerð dagana 6.-11. mai og samkvæmt niðurstöðunum eru litlar breytingar á fylgi flokkanna.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist nú með 22,1% stuðning, borið saman við 24,6% í könnun sem lauk 21. apríl. Fylgi Bjartrar framtíðar mældist nú 19,4%, borið saman við 16,8% í síðustu könnun. Fylgi Samfylkingarinnar mældist nú 16,4%, borið saman við 15,6% í síðustu könnun. Fylgi Framsóknarflokksins mældist nú 12,3%, borið saman við 11,8% í síðustu könnun. Vinstri-græn mældust nú með 11,6% fylgi, borið saman við 12,5% í síðustu könnun. Píratar mældust nú með 9,6% fylgi, borið saman við 11,1% fylgi í síðustu könnun. Fylgi annarra flokka mældist undir 3%.

Könnunin var gerð þannig að lagðar voru allt að þrjár spurningar fyrir svarendur um stuðning þeirra við stjórnmálaflokka. Allir voru spurðir spurningar 1: „Ef kosið yrði til Alþingis í dag, hvaða flokk myndir þú kjósa?“. Þeir sem svöruðu „Veit ekki/óákveðin(n)“ við spurningu 1 voru því næst spurðir spurningar 2: „En hvaða flokkur yrði líklegast fyrir valinu?“. Ef aftur var svarað „Veit ekki/óákveðin(n)“ þá voru þátttakendur að lokum spurðir spurningar 3: „Hvort er líklegra að þú kysir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern hinna flokkanna?“.

Úrtak í könnuninni er valið þannig að einstaklingar 18 ára og eldri, valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR. Álitsgjafar MMR eru valdir úr Þjóðskrá þannig að þeir endurspegli lýðfræðilega samsetningu þjóðarinnar á hverjum tíma. 963 einstaklingar, 18 ára og eldri, svöruðu spurningunni.