Fylgi við Francois Hollande forseta Frakklands hefur hrunið frá því að hann tók við völdum í maí 2012.

Samkvæmt nýrri könnun sem birtist í franska dagblaðinu Le Journal Du Dimanche styðja aðeins 25% landsmanna forsetann.

Stuðningur stuðningsmanna Sósíalistaflokksins hefur dalað mikið á. Aðeins 64% stuðningsmanna flokksins styðja Hollande en 77% studdu hann samkvæmt könnun sem var framkvæmd í mars.

Hollande hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir mörg mál að undanförnu, meðal annars tilraunir hans til að leggja ofurskatta á hálaunafólk.

Eftir að franski stjórnlagadómstóllinn ógilti þær tilraunir hefur Hollande ákveðið að leggja slíkan skatt heldur á fyrirtæki.