Katrín Olga Jóhannesdóttir, sem er meðal annars stjórnarformaður Já, var kosin í fimm manna nefnd um erlenda fjárfestingu af Alþingi fyrir sumarþinglok. Með henni í nefndinni eru Unnur Kristjánsdóttir, Adolf H. Berndsen, Sigurjón Örn Þórsson og Lára Hanna Einarsdóttir. Tilkynna þarf til viðskiptaráðherra alla fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri á Íslandi. Er það aðallega gert til að koma í veg fyrir að erlendir aðilar fjárfesti beint í veiðum og frumvinnslu sjávarafurða. Nefndin tekur þessar tilkynningar til umsagnar.