Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri segir að starfsmenn embættisins hafi að undanförnu farið í auknum mæli í heimsóknir í fyrirtæki og gengið úr skugga um hvernig skattaskilum sé háttað. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu .

Skúli segir í samtali við Morgunblaðið að margir nýir rekstraraðilar séu að taka til starfa. Margir af þeim tengist ferðaiðnaðinum eða þjónustu við ferðamenn. Það séu gististaðir, ýmis konar önnur þjónusta og veitingarekstur. „Þetta er í misjöfnu ástandi og talsverður hluti af tíma eftirlitsmanna okkar fer í það að leiðbeina fólki um það hvernig það eigi að haga sér.“

Þá segir Skúli að menn séu að teygja sig lengra nú en áður í að leiga hluta heimila sinna til ferðamanna og þar þurfi einnig að auka eftirlit. Hann segir hins vegar að starfsmenn embættisins fari ekki inn á heimili fólks til þess að ganga úr skugga um það. Þær athuganir séu gerðar öðruvísi. „Við fáum upplýsingar um greiðslur sem fara í gegnum þær vefsíður, sem sjá um slíka útleigu. Í kjölfar þess að fá slíkar upplýsingar, göngum við úr skugga um að skattaskilin séu í lagi.“