TVG-Zimsen er með starfsemi víða annars staðar en á Íslandi og segir Björn Einarsson, framkvæmdastjóri TVG-Zimsen, fyrirtækið fylgja alþjóðlegri fyrirmynd í starfseminni, sem skapar sérstöðu fyrir fyrirtækið á markaði.

Í hverju felst þjónusta ykkar við erlend kvikmyndafyrirtæki?

„Þetta getur verið afar mikið umfang, við komum t.d. að flutningnum gagnvart Fast and Furious verkefninu sem var mjög umfangsmikið. Kvikmyndageirinn er annað dæmi um aukinn áhuga á Íslandi og hér höfum við gott umhverfi. Skattaumhverfið er gott, Ísland býður upp á öflugt og sterkt landslag, við getum boðið upp á dagsbirtu allan sólarhringinn ákveðinn tíma ársins þannig menn geta nýtt tæki, tól og mannskap mjög vandlega yfir allan sólarhringinn.

Ísland á gríðarleg tækifæri þegar kemur að kvikmyndageiranum en hann gerir miklar kröfur til okkar, bæði gagnvart trúnaði og verklagi. Það er lítil þolinmæði fyrir öðru en að tímasetningar standist og vinnslan sé eins og best verður á kosið. Það er mikilvægt fyrir okkur að skapa traust gagnvart erlendum flutningsaðilum sem sérhæfa sig í þessum flutningum og það höfum við svo sannarlega gert í þessum verkefnum.“

Er viðburðadeildin ykkar að verða stærri hluti af starfseminni?

„Við höfum markað okkur þá stefnumótun að eiga sterka stöðu inn á þessum mörkuðum og ég held að ástæðan fyrir auknum styrk og vexti TVG Zimsen sé sú breidd sem við höfum. Við sjáum að alþjóðlegar flutningsmiðlanir eru með alla þessa breidd og við höfum byggt okkur upp eftir alþjóðlegri fyrirmynd. Við sinnum þessum kjarnaflutningum fyrir innflytjendur og útflytjendur og hönnum sérhæfðar lausnir fyrir þá, erum þétt við bakið á þeim, þannig að þeir finni okkar háa þjónustustig. Síðan er það þessi jaðarþjónusta sem gerir mjög mikið fyrir okkur, að vera sterk í viðburðaflutningum, sérhönnuðum lausnum fyrir lyfjageirann, með flutningalausnir fyrir íslensk fyrirtæki á erlendri grundu, og fleira. Ég held að þessi alþjóðlega fyrirmynd sem við fylgjum búi til sérstöðu fyrir okkur á markaðnum.“

Þið eruð með starfsemi víða annars staðar en á Íslandi?

„Við höfum stillt upp ákveðnum gáttum (e. gateway), Rotterdam er t.d. mjög mikilvæg gátt fyrir okkur og þar erum við með mjög öfluga safngámastarfsemi sem nær bæði til Evrópusendinga og sendinga frá Asíu eða Bandaríkjunum. Í Rotterdam erum við með eigin skrifstofu og fimm manna teymi, en við erum líka með skrifstofur í Árósum sem er mjög mikilvæg gátt fyrir Skandinavíu og Eystrasaltslöndin. Við erum einnig með þriggja manna skrifstofu í New York þar sem við höfum sterka stöðu í flugi frá Norður-Ameríku.

Þá vorum við að bæta við í okkar Hollandsstarfsemi skrifstofu á Schipol flugvelli í Amsterdam. Íslensku flugfélögin hafa aukið tíðni sín til Amsterdam og um leið aukið flutningsgetu sína til mikilla muna, sem gerir það að verkum að þetta verður mun sterkari stað- ur fyrir okkar kerfi varðandi flugfrakt frá Evrópu. Við sjáum mikla möguleika í Amsterdam og settum því upp skrifstofu þar.“

Þið hafið líka verið að auka ykkar umsvif á Grænlandi?

„Við viljum taka sterkan þátt á markaðnum og þeirri þróun sem á sér stað á norðurslóðum og víkka út þá starfsemi sem við erum að sinna á Íslandi. Við trúum að Ísland eigi eftir að sinna stórauknu hlutverki gagnvart Grænlandi þegar kemur að flutningum og við sjáum mikla möguleika í því að þjónusta t.d. skip og sjá um viðburðaflutninga til Grænlands. Í samstarfi við Royal Arctic Line sjáum við t.d. um allt flug frá Danmörku til Grænlands í dag og við munum tengja Ísland meira inn í það á næstunni. Við sjáum fram á að meiri flutningar til Grænlands geti farið í gegnum Ísland og að Grænlendingar nýti sér aukna þjónustu frá Íslandi í flugfrakt. Við viljum styrkja flutningalausnir fyrir grænlenskt samfélag auk þess sem það geta verið mörg spennandi verkefni í framtíðinni á Grænlandi tengd námugreftri, olíuiðnaði eða öðru slíku.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .