*

þriðjudagur, 4. ágúst 2020
Innlent 13. janúar 2020 18:02

Fylgja þarf þörfum markaðarins

Pawel Bartoszek, forseti borgarstjórnar, segir að stjórnkerfið mætti vera duglegra að hlusta á þarfir markaðarins.

Sveinn Ólafur Melsted

Sumir hafa gagnrýnt þéttingarstefnu Reykjavíkurborgar og bent á að þétting byggðar leysi ekki húsnæðisvanda unga fólksins, enda séu íbúðirnar sem byggðar hafa verið of stórar og dýrar. Pawel Bartoszek, forseti borgarstjórnar, sem er í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, kveðst vera þeirrar skoðunar að stjórnkerfið mætti vera duglegra að hlusta á þarfir markaðarins.

„Við þurfum að passa upp á það á hverjum tíma að það sé byggt nógu mikið af íbúðarhúsnæði, til þess að verðið rjúki ekki upp úr öllu valdi. Það er mín skoðun að borgin ætti að fylgjast vel með því sem markaðurinn vill gera og ég veit að það hefur verið áhugi á því frá markaðnum að minni íbúðir séu byggðar. Mér finnst stundum eins og stjórnkerfið hér sé ekki alltaf að taka nægilega vel í þær hugmyndir. Heilt yfir erum við með skipulagsstefnu sem er góð en þegar einstaka ákvarðanir eru skoðaðar má sjá að oft eru gerðar athugasemdir um að nýtingarhlutfall sé of hátt.

Það er stundum ákveðið missamræmi milli þess að vilja þétta byggð heilt yfir en á einstaka reit sé svo reynt að draga úr byggingamagni fremur en hitt. Þetta tvennt fer ekki saman hugmyndafræðilega. Ég hef beitt mér fyrir því innan skipulagsráðsins að við tökum betur í það þegar fólk vill breyta fyrirliggjandi áætlunum sem gerir ráð fyrir stærri íbúðum yfir í áform um minni íbúðir. Við í borginni verðum að fylgjast vel með þróuninni og leyfa markaðnum að fá ákveðið frumkvæði til að koma fram með lausnir."

Nánar er rætt við Pawel í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér