Lögreglan hefur regluleg afskipti af svokölluðum skutlurum sem bjóða upp á fólksflutninga gegn gjaldi á samnefndri facebook síðu. Í dagbók lögreglunnar segir að síðastliðið laugardagskvöld hafi lögreglan haft afskipti af ökumanni á gatnamótum Hringbrautar og Snorrabrautar í Reykjavík að því er Morgunblaðið greinir frá.

Í hópnum sem telur um 37 þúsund manns bæði óska meðlimir eftir skutli eða bjóða upp á það gegn gjaldi, en slík þjónusta er leyfisskyld. Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í umferðardeild lögreglunnar segir að til þess að sanna brotin þurfi skutlararnir að annað hvort viðurkenna brotið sjálfir eða farþegarnir staðfesta að þeir hafi þegið far gegn gjaldi.

„Á þessari síðu eru sett inn símanúmer og bílnúmer sem við skráum jafnharðan niður hjá okkur,“ segir Ómar Smári sem segir að lögreglan hringi stundum í viðkomandi til að gera þeim grein fyrir að um lögbrot sé að ræða. „Ef við sjáum þessa bíla svo á ferðinni að næturlagi um helgar athugum við með þá.“

Ómar Smári segir flesta hætta starfseminni eftir afskiptin, en oft séu þetta krakkar sem vanti aukapening og viti ekki að þurfi leyfi og tryggingar fyrir svona þjónustu. „Þeir sem láta ekki segjast eru teknir fastir.“