Samkvæmt upplýsingum viðskiptaskrifstofu Bandaríkjanna hefur jólasveinninn sífellt minni tíma til að koma gjöfum sínum til skila vegna fjölgunar jarðarbúa. Hefur bandaríski herinn og geimferðastofnun Bandaríkjanna NASA því sett á fót endurbætt staðsetningakerfi, þar sem almenningi gefst kostur á að fylgjast með á netinu hvort jólasveinninn rati til allra á aðfangadagskvöld.     Nýjasta talning sýnir að íbúar jarðarinnar eru rúmlega 6,7 milljarðar (6.747.994.729). Þar af eru íbúar Bandaríkjanna tæplega 306 milljónir (305.910.988) svo sveinki hefur í nógu að snúast.     Til að tryggja skilvirkari dreifingu jólagjafa og öryggi í loftferðum jólasveinsins á sleða sínum, hefur verið gripið til síaukinnar tæknivæðingar. Hefur bandaríski flugherinn meira að segja gengið til liðs við jólasveininn ef marka má frétt á vefsíðu bandarísku geimferðastofnunarinnar NASA. Frá norðurslóðastjórnstöð flughersins í Peterson herstöðinni í Colarado mun NORAD nú í fyrsta sinn nota svokallað GOES-13 sem er endurbætt staðsetningakerfi til að liðsinna jólasveininum. Það byggir á notkun gervihnattar sem er í um 36.000 kílómetra fjarlægð frá jörðu. Safnar hann saman upplýsingum með innrauðum geislum frá fjölda annarra gervihnatta. Nýtir hann m.a. COSPAS gervihnetti Rússa.   Segir í fréttinni að nef hreindýrsins Rúdolfs gefi frá sér innrautt merki sem er svipað og eldflaugar senda frá sér. Þannig er hægt að fylgjast með ferðum jólasveinsins af mikilli nákvæmni og gefa honum leiðbeiningar ef hann er að klikka á einhverju heimilisfanginu. Eftir sólarlag á aðfangadagskvöld þann 24. desember 2008 á almenningur að geta fylgst með ferðum jólasveinsins á rauntíma um himingeiminn á vefsíðu NORAD Santa.