Markaðs- og ráðgjafafyrirtækið Nordic eMarketing var stofnað árið 2005 og hefur alla tíð starfað á sviði markaðssetningar á Internetinu. Nýlega hóf það að bjóða upp á þjónustu í tengslum við vörumerkjastjórnun á Internetinu (e. online brand management).

Kristján Már Hauksson, sviðsstjóri Internetmarkaðssetningar og einn stofnenda fyrirtækisins, segir þjónustuna ganga út á að vinna með fyrirtækjum í að passa vörumerki þeirra á netinu. „Við vinnum í raun með þeim í að fylgjast með allri umfjöllun um vörumerki viðskiptavinarins á netinu. Þetta er nokkuð óplægður akur en tækifærin eru mörg, bæði hér heima og úti í heimi. Við erum nýlega komnir inn á þetta svið og höfum skapað okkur mikla þekkingu undanfarið.“ Hann segir mjög fá fyrirtæki í heiminum geta veitt þá þjónustu sem Nordic eMarketing gerir. Hér sé um að ræða ákveðna sérþekkingu sem mjög fáir búi yfir.

Fylgst með umræðu á netinu

„Það sem þjónustan felur m.a. í sér er að við fylgjumst með allri umræðu um viðskiptavini okkar á vefsíðum, bloggsíðum, spjallþráðum og víðar og ráðleggjum viðbrögð þegar þess gerist þörf.“ Hann nefnir sem dæmi þegar samtök vefklámiðnaðar í Bandaríkjunum ætluðu að halda ráðstefnu á Radison SAS í Reykjavík á síðasta ári. Þrýst var á hótelið að afbóka hópinn og í kjölfarið varð málið hið vandræðalegasta að sögn Kristjáns. „Það sem gerist er að fjölmiðlar pikka þetta allt upp. Ég get nefnt sem dæmi að í Bretlandi sýna rannsóknir að 98% blaðamanna nota netið sem tæki til efnisöflunar og 73% þeirra nota það til að leita ákveðinna frétta, t.d. hjá Google. Þegar blaðamenn fóru inn á Google fréttir á þessum tíma og slógu inn Radison SAS komu þessar fréttir frá Íslandi endalaust upp hjá þeim.“

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .