Eins og Íslendingar hafa eflaust tekið eftir, annaðhvort í fjölmiðlum eða einfaldlega rekið augun í, þá hefur fyrirtækið Tomato komið upp fimm hraðbönkum í miðborg Reykjavíkur. „Við sjáum tækifæri í því að fylla í það skarð, sem bankarnir eru að skilja eftir sig. Þeir hafa verið að loka útibúum og fjarlægja hraðbanka. Við teljum að þessi hugmynd okkar eigi fullt erindi inn á markaðinn. Við erum að gera út á að þjónusta erlenda ferðamenn en hins vegar viljum við líka þjónusta Íslendinga,“ segir Arnþór Halldórsson, einn stofnenda fyrirtækisins Tomato.

Fornkvöðull

Arnþór hefur talsvert veganesti með sér hvað fyrirtækjarekstur varðar. „Það er nú þannig að þegar maður einu sinni fær reynslu af því að stofna ný fyrirtæki og byggja upp þá er oft ekki aftur snúið. Fyrir mörgum árum þá var ég ráðinn til að byggja upp gamla TAL frá grunni. Ég starfaði svo sem framkvæmdastjóri sölu- og markaðs hjá fyrirtækinu. Þá hafði teningnum verið kastað. Ég stofnaði meðal annars Hive og byggði það upp frá grunni. Ég hef einnig komið að uppbyggingu gagnavera og fiskeldis. Ég kem að þessu sem ekki beint frumkvöðull heldur það sem hægt er að kalla fornkvöðull af gárungunum. Félagi minn, Ársæll Hreiðarsson, er meðeigandi að Tomato. Við höfum mikla reynslu af stjórnun, rekstri og uppbyggingu fyrirtækja.“ segir Arnþór.

Samstarf við 10-11

Fyrirtækið Tomato er til að mynda í samstarfi við 10-11 um uppsetningu á hraðbönkum við þeirra verslanir. „Það samstarf fer mjög vel af stað. Við sjáum talsverða umferð af Íslendingum og ferðamönnum,“ að sögn Arnþórs. „Við höfum verið að skoða niðurstöður erlendra rannsókna þar sem það sýnir sig skýrt að þar sem hraðbankar eru staðsettir þar njóta kaupmenn þess í auknum viðskiptum. Þetta er því gott fyrir smásöluverslun. Það má ekki gleyma því að þó að Ísland sé vel kortavætt, þá er hið sama ekki upp á teningnum alls stað- ar í nágrannalöndum okkar. Fólk er vanafast og vill gjarnan hafa reiðufé með sér. Við þekkjum það erlendis frá að þegar við förum út erum við vön því að láta kortin frá okkur.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð .