Fyrirtækið Dineout, sem rekur heildstætt bókunarkerfi fyrir veitingastaði, hefur líkt og veitingastaðirnir þurft að bregðast við breyttum aðstæðum vegna kórónuveirufaraldursins. Fyrirtækið hefur frá stofnun árið 2017 fyrst og fremst einblínt á borðabókanir en vegna samkomutakmarkana þurfti það að venda sínu kvæði í kross.

„Við ákváðum að búa til „take away" lausn inn í kerfið okkar til að bregðast við þessu ástandi," segir Inga Tinna Sigurðardóttir, einn stofnenda og eigenda Dineout. Hún bendir á að umrætt matarpöntunarkerfi einfaldi fólki að panta mat frá hinum ýmsu frábæru stöðum sem undir venulegum kringumstæðum hafa ekki verið að einblína á matarpantanir sem fara úr húsi.

„Í venjulegu árferði leggja flestir af þessum veitingastöðum mesta áherslu á að fá fólk til sín í mat og drykki og veita þessa heildarupplifun sem fólk er á höttunum eftir þegar það vill gera vel við sig. En núna eftir að faraldurinn skall á hafa sífellt fleiri ákveðið að byrja að bjóða fólki upp á að sækja mat eða fá hann heimsendan."

Að sögn Ingu Tinnu eru tæplega 90 veitingastaðir inni í kerfi Dineout sem staðsettir eru víða um land, en meginþorri þeirra sé staðsettur á höfuðborgarsvæðinu. „Í upphafi einblíndum við á höfuðborgarsvæðið, þar sem það er okkar nærumhverfi. Með tíð og tíma höfum við svo í auknum mæli verið að anna eftirspurn á landsbyggðinni."

Margir möguleikar á teikniborðinu

Vikurnar í kringum jólin hafa löngum verið gósentíð fyrir veitingamenn hér á landi en mikil óvissa ríkir nú um hvort samkomutakmarkanir leggi stein í götu þeirra. Fyrir jólin í fyrra bætti Dineout við nýjum möguleika í kerfi sitt sem fól í sér sölu inni á viðburði veitingastaða í gegnum vefsíðuna jolahladbord.is. Inga Tinna segir að þessi nýjung hafi heppnast vel og vonast til að aðstæður í þjóðfélaginu verði þannig í nóvember og desember að veitingastaðir geti staðið fyrir viðburðum líkt og jólahlaðborðum og skötuveislum.

„Inni á vefsíðunni gátu veitingastaðir boðið uppi á sölu inn á viðburði á sínum stað sem fólk greiddi fyrirfram fyrir. Í venjulegu árferði er ég sannfærð um að viðburðahald inni á veitingastöðum allt árið um kring hefði orðið sífellt algengara, en ég er bjartsýn á að það styttist í að aðstæður bjóði upp á slíkt."

Inga Tinna segir að ofangreindur möguleiki sé einn af þó nokkrum sem Dineout geti gripið til eftir hentugleika. Þá séu einnig margar nýjar lausnir á teikniborðinu. „Við reynum að safna saman lausnum inn á „lager" til þess að geta brugðist við tíðarandanum hverju sinni."

Smáforrit og vildarkerfi

Nýjasti viðbót við Dineout kerfið er smáforrit. Smáforritið, sem var hannað og útfært af Magnúsi Birni Sigurðssyni og Viktori Blöndal Pálssyni, var nýverið sett í loftið og segir Inga Tinna að það hafi lengi verið á döfinni að bæta því inn í lausnamengi Dineout.

„Smáforritið er mjög einfalt í notkun og aðstoðar fólk við að finna þá gerð af veitingastað sem það sækist eftir hverju sinni," segir hún og bendir á að smáforritið leysi algengt vandamál, sum sé ákvarðanatökuna um hvert skuli fara út að borða. Þá standi til að bæta ýmsu gagnlegu við smáforritið þegar fram líða stundir, m.a. vildarkerfi.

„Hugmyndin er sú að þegar fólk bókar í gegnum appið þá safni það ákveðinni vild eða inneign sem það getur svo notað á ákveðnum veitingastöðum, sem taka þátt í þessu verkefni, upp í reikninginn," útskýrir hún.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Greiningarfyrirtæki telur hlutabréf Eimskips undirverðlögð um þriðjung. Umfjöllun Kveiks hafði áhrif á virði Eimskips. Ummerki eru um rekstrarbata.
  • Úttekt á afkomu stærstu bílaumboða landsins
  • Möguleg endurflokkun á ríkisstofnunum gæti leitt til umtalsverðra áhrifa á stöðu A-hluta ríkisins.
  • Fyrsta málið er varðar gildi og efndir samnings eftir Covid er komið inn á borð til dómstóla.
  • Erlendar ferðaskrifstofur telja sig eiga inni háar fjárhæðir hjá Skattinum vegna endurgreiðslna á virðisaukaskatti.
  • Rætt er við framkvæmdastjóri hugbúnaðarfyrirtækisins Smartmedia en mikil gróska hefur verið í netverslun.
  • Arnar Halldórsson nýr aðstoðarhönnunarstjóri Brandenburg segir frá tónlistarferlinum og lærdómnum frá Noregi.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um vald fjölmiðlaráðherra
  • Óðinn skrifar um tryggingargjaldið og atvinnuleysi