Stjórnarandstæðingunum Helga Hjörvari og Katrínu Jakobsdóttur þykir skjóta skökku við að á sama tíma og ríkisstjórnin hafi boðið að láta auðlindaskattinn falla niður og fella úr gildi sérstakt veiðigjald þá kvarti þeir Sigmundur Davið Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, yfir því að áætlanir í ríkisbúskap standist ekki.

Þeir boðuðu til blaðamannafundar í Þjóðmenningarhúsinu í gær þar sem fram kom að á sama tíma og tekjur verði átta milljörðum krónum lægri á þessu ári á sama tíma og útgjöld verða sex milljörðum krónum meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Að viðbættu því að útlit sé fyrir að ríkissjóður þurfi að taka á sig 13 milljarða vegna fjárhagsvanda Íbúðalánasjóðs. Af þeim sökum þurfi að hætta við ýmsar framkvæmdir til að draga úr útgjöldum.

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, benti á það í umræðum um störf þingsins á Alþingi í dag að auðlegðarskatturinn hafi skilað 10 milljörðum króna og sé ljóst að efnafólks og útgerðarfólk fái peninga sína strax á sama tíma og skuldavandi heimilanna verði settur í nefnd.

Einkennilegt að lækka veiðigjaldið

Undir þetta tók Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, sem benti á að á sama tíma vantir tekjur til að fylla upp í gatið sem auðlegðarskatturinn og sérstaka veiðigjaldið skilja eftir sig. Katrín benti m.a. á að falli sérstakt veiðigjald niður þá muni tekjur ríkissjóðs dragast saman um 3,2 milljarða á þessu ári og 6,4 milljarða á næsta ári. Þetta setti hún í samhengi við nýja veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar en miðað við boðaða hækkun á kvóta geti útflutningur aflaverðmætis hækkað um 15 til 16 milljarða króna. Af þeim sökum sé einkennilegt að við hæfi sé að lækka sérstakt veiðigjald sem tekið er af arði sjávarútvegsfyrirtækja.

Enginn mælti gegn þeim Helga og Katrínu.