Evrópski seðlabankinn víkkaði á sínum tíma út veðheimildir til þess að auka skammtímaaðgengi að lánsfé vegna lánsfjárkreppunnar. Útvíkkunin nær meðal annars til fasteignatryggðra lánapakka. Þrátt fyrir að margir vilji meina að þessar aðgerðir hafi leitt til þess að ekkert bankahrun sambærilegt við það sem gerðist með Northern Rock í Bretlandi og Bear Stearns í Bandaríkjunum hafi enn átt sér stað á evrusvæðinu, hafa gagnrýnisraddir á þetta fyrirkomulag verið háværar.

Gagnrýnin hefur fyrst og fremst verið tvíþætt: Í fyrsta lagi hefur verið bent á að fyrirkomulagið geri það að verkum að vafasöm veð safnist upp í bókum Evrópska seðlabankans og í öðru lagi eykur það hættuna á að fjármálastofnanir verði beinlínis háðir seðlabankanum um skammtímafjármögnun. Þegar ákveðið var að víkka út veðheimildir Evrópska seðlabankans gerðu fæstir ráð fyrir að lánsfjárkreppan yrði jafn djúpstæð og raun hefur borið vitni.

Búist var við að þetta yrði tímabundin aðgerð sem yrði svo hætt þegar ástandið á fjármálamörkuðum yrði eðlilegt á ný og bankar gætu fjármagnað sig með hefðbundnum hætti. Síðan þá hefur liðið eitt ár og á þeim tíma hefur Evrópski seðlabankinn látið af hendi mikið magn af ríkisskuldabréfum gegn lánapökkum – sem sumir hverjir kunna að innihalda vafasöm veð.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .