*

föstudagur, 18. júní 2021
Innlent 19. apríl 2019 16:13

Fyllti húsið þrjá vetur í röð

Sigríður Beinteinsdóttir söngkona átti mjög gott ár árið 1994, stofnár Viðskiptablaðsins, en þá fór hún á Eurovision í þriðja sinn.

Höskuldur Marselíusarson
Sigga Beinteins var gríðarlega stressuð áður en hún steig á svið með lagið Nætur í Eurovision 1994, og segist hún hafa fundið vel fyrir því að bera alla ábyrgðina ein, en áður hafði hún sungið í dúettum í keppninni.
Haraldur Guðjónsson

Árið 1994, þegar Viðskiptablaðið hóf göngu sína, fór hin landskunna söngkona Sigríður Beinteinsdóttir í sína þriðju Eurovision ferð sem fulltrúi þjóðarinnar. „Þegar ég fer með lagið Nætur til Dublin, þá var ég ekki upprunalega söngkonan til að flytja lagið, heldur var það Sigrún Eva, sem söng með mér Nei eða já árið 1992, sem kom því áfram í undankeppninni hér,“ segir Sigríður.

„Írarnir voru alltaf að vinna þetta á þessum árum, enda máttu þeir syngja á ensku, en hátíðin var mjög flott hjá Írunum. Það er svo mikil stemning í borgunum þar sem Eurovision er haldin, þær breytast bara algerlega, eru skreyttar með fánum Eurovision landanna út um allt, og svo eru sérstakir Eurovision klúbbar fyrir keppendur, sem bara keppendur mega fara inn á og gríðarleg öryggisgæsla á öllu. Maður fílar sig alveg eins og risastjörnu þessa daga sem maður er úti.

Þegar ég fer út ‘94, þá var ég að syngja ein á sviðinu, og ég þurfti að bera þetta allt uppi. Maður finnur alveg ef maður hefur einhvern við hlið sér, eins og árið 1990 þegar Grétar var með mér eða Sissa árið ‘92, að ábyrgðin skiptist aðeins, en þarna var ég alvarlega stressuð. Ég hugsaði með mér, ég er ein hérna, þarf að standa og klára þetta.

Nætur er rólegt lag en kraftmikið, og endaði hátt uppi þannig að allt þurfti að vera 100% í lagi, og það er það sem maður er allan tímann að hugsa um áður en stigið er inn á svið. Síðan getur oft gerst ef maður verður stressaður að textinn getur farið alveg frá manni, og maður man ekki neitt. Ég man að ég hugsaði, Guð minn góður, hvað ef ég klikka á textanum, sem ég veit að er algerlega rangt að hugsa, því maður verður að hugsa jákvætt alla leiðina.“

Sigga segir það auðvitað hafa hjálpað sér þegar hún fór á Eurovision að hafa verið komin með mikla reynslu af af framkomu og söng á opinberum vettvangi enda hafði hún sungið með einni vinsælustu hljómsveit landsins í nokkur ár á undan.

„Á þessum tíma, árið 1994 þá vorum við í Stjórninni að spila um hverja helgi í Þjóðleikhúskjallaranum, en áður höfðum við verið að spila á Hótel Íslandi, byrjuðum þar árið 1989 eða 90, og vorum þar fyrir fullu húsi í þrjá vetur. Ég kom inn í bandið um jólin 1988, tók við af Öldu Ólafs sem flutti út til London, en ég hafði líka verið í alls konar sýningum á Hótel Íslandi á þessum tíma. Þetta voru bæði söngleikja- og tónlistarsjóv, það var seldur matur og kannski sjö til átta hundruð manns í húsinu á hverjum einasta föstudegi og laugardegi í mat og sjóvi. Þetta var æðislegt hús, með mörgum sölum, og það gátu verið upp í tólf til fimmtán hundruð manns þegar við vorum að spila á böllum og árshátíðum þarna. Þetta var rosalega vinsælt á þessum árum, en í dag er enginn svona staður, sem er alveg sorglegt,“ segir Sigga.

„En þetta var mjög skemmtilegur tími. Til dæmis þegar ég fór á Eurovision árið 1990, þá var fyrirkomulagið allt öðruvísi hérna heima. Þá var landinu skipt niður í landshluta og gefin stig frá hverjum, nákvæmlega eins og í Evrópukeppninni, sem bjó til mikla stemningu og þá vorum við að fá 12 stig frá flestum stöðum af landinu. Nú er þetta orðin svo mikil vinsældakosning þar sem hægt er að hópa svo mikið af fólki á bakvið þig, sem mér finnst ekki alveg rétt því fólk er með misjafnlega mikla tengingu.

Til dæmis eins og hún Kristína frá Færeyjum, mér fannst lagið hennar í ár alveg geggjað, enda gott popplag sem mér fannst passa vel inn í þessa keppni, og hefði ég viljað að það hefði farið, en hún er ekkert þekkt á Íslandi og hefur þar af leiðandi lítið bakland í símakeppni. Að vísu breyttist keppnin aðeins í ár, þegar dómnefnd kom á móti.

Ég verð nú að viðurkenna að ég hélt nú ekki með Hatara fyrst, en þegar ég sá atriðið þeirra á úrslitakvöldinu snerist mér hugur, því þá sá maður hvað var mikil markaðsmaskína á bak við þetta allt hjá þeim og hvað atriðið var glæsilegt. Þeir áttu þetta kvöld, en svo veit maður ekki hvað þeir gera úti, það verður örugglega hávaði og læti í kringum þá líkt og hjá Sylvíu Nótt.“

Viðtalið má lesa í heild í 25 ára afmælistímariti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift á sérstöku afmælistilboði hér eða pantað tímaritið.