Í byrjun árs, um það leyti sem kórónuveirufaraldurinn var að taka sér bólfestu hér á landi, setti Kathryn Gunnarsson ráðninga- og mannauðsráðgjafarfyrirtækið Geko á laggirnar. Hún segir það alltaf hafa staðið til að ýta fyrirtækinu formlega úr vör á sjálfan hlaupársdaginn, 29. febrúar. „Hugsunin var að með þessu yrðum við alltaf ungt fyrirtæki sem er sífellt að koma fram með nýjar hugmyndir og aðferðir." Meðstofnendur hennar og fjárfestar í félaginu eru Grímur Axelsson og Erlendur Þór Gunnarsson.

Kathryn segir að faraldurinn hafi vissulega haft sín áhrif og gert það að verkum að gjörbylta þurfti viðskiptamódeli fyrirtækisins og aðlaga áherslur þess að nýjum veruleika. Þar hafi þó reynst styrkleiki að vera nýtt félag sem gat aðlagast mjög fljótt.

„Kjarni hvers fyrirtækis er starfsfólkið og okkar hlutverk er að starfa með íslenskum fyrirtækjum og útvega þeim hæfileikaríkasta starfsfólkið, auk þess að styðja fólk í gegnum ráðningarferlið. Við leiðbeinum fyrirtækjum við að búa til fjölbreytt og vinalegt starfsumhverfi. Sambönd okkar hér á landi og þekking á atvinnulífinu eru grundvöllurinn að því sem við gerum. Við sérhæfum okkur í hæfileikafólki á STEAM-sviðunum, eða sem sagt vísindum, tækni, verkfræði, listum og stærðfræði," segir Kathryn beðin um að lýsa hlutverki Geko.

Hraður vöxtur

Kathryn, sem kemur frá Bretlandi, flutti til Íslands frá Lundúnum fyrir rúmlega fjórum árum ásamt íslenskum eiginmanni sínum og tveimur börnum. „Undanfarin tuttugu ár hef ég starfað á sviði mannauðsmála og ráðninga. Fyrir flutningana hafði ég gert mér vonir um að ég gæti fengið starf á Íslandi þar sem reynsla mín og þekking myndi nýtast." Eftir að hafa komið sér fyrir á Íslandi kveðst Kathryn hafa farið á fullt í að leita sér að vinnu en það hafi reynst erfitt að finna störf sem líktust því sem hún hafði verið að gera úti í London. Að lokum hafi hún þó fundið sér starf hjá fyrirtækinu TeqHire sem sérhæfir sig í ráðningum og ráðgjöf með áherslu á upplýsingatæknimarkað.

„Starfið hafði í för með sér fjölda tækifæra fyrir mig og hjálpaði mér að byggja upp tengslanet hér á Íslandi," segir Kathryn. Hún starfaði hjá TeqHire í tvö og hálft ár og ber fyrirtækinu góða sögu. Hún segist þó hafa saknað þess að vinna ekki meira í mannauðsmálum. Hún hafði komið auga á göt á íslenska markaðnum sem hún taldi sig geta fyllt upp í með reynslu sinni og þekkingu frá fyrri störfum. Upp frá því kviknaði hugmyndin að Geko.

Til að byrja með var Kathryn eini starfsmaður Geko en eftir því sem verkefnum fór að fjölga segist hún hafa gert sér grein fyrir því að hún þyrfti á liðsstyrk að halda til þess að geta nýtt styrkleika sína sem best. Anna Frackiewicz og Unnur María Birgisdóttir hafa því bæst við starfsmannahópinn á undanförnum mánuðum. Viðskiptavinahópurinn, sem sífellt fer stækkandi, inniheldur fyrirtæki á borð við CCP, Viss, Opin Kerfi, Trackwell og Advania.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .