Sádí Arabía, stærsti útflutningsaðili á hráolíu, dældi í 10,67 milljón tunnur á dag í júlí. Þjóðin hefur aukið framleiðslu gríðarlega í sumar, til þess að komast til móts við eftirspurn á heimamarkaði. Þetta kemur fram á vef Bloomberg, en OPEC gerði upplýsingarnar ekki opinberar. Um er að ræða framleiðslumet, sem var síðast slegið í júlímánuði 2015. Þá voru 10,56 milljón tunnur fylltar.

Orkuþörf eykst umtalsvert á Arabíuskaga yfir sumarmánuðina, en þá eru heilu borgirnar kældar niður með loftræstingarkerfum. Hrávöruverð hefur lækkað mikið undanfarin ár, en kaupgengi tunnunnar er rétt norðan við 40 dali. OPEC ríkin munu funda í næsta mánuði, og ræða aðgerðir til þess að stýra mörkuðum. Líklegt er að ríkin reyni að finna leiðir til þess að draga úr framleiðslu.