Jákvæða fólkið, sem sendir broskalla og rósir í tölvupóstum, er ekki eins duglegt að svara tölvupóstum og fólk sem er neikvætt, samkvæmt nýrri rannsókn. Stuff.co.nz fjallar um málið á fréttasíðu sinni í dag.

Verkfræðingar hjá markaðsfyrirtækinu Contactually skoðuðu meira en 100 milljón tölvupósta og niðurstöðurnar komu á óvart.

Fólk sem er jákvætt og uppbyggilegt í tölvupóstum sínum svarar aðeins 47% af tölvupóstum innan 24 klukkustunda. Þeir sem eru neikvæðir og súrir í svörum og nota orð eins og „sakna“ eða „heimskur“ svara 64% af tölvupóstum sínum innan 24 klukkustunda.

Hvers vegna fúla fólkið er duglegra er ekki alveg ljóst. Fyrst var talið að það tæki kannski styttri tíma að svara á neikvæðum nótum en á jákvæðum en þegar tölvupóstarnir voru rannsakaðir nánar kom í ljós að ekki var marktækur munur á lengd póstanna.

Niðurstöðurnar má hugsanlega frekar skýra út þannig að neikvætt og reitt fólk er í heildina aktívara á netinu. Þetta gæti útskýrt hvers vegna þeir sem eru „virkir í kommentum" eru svona virkir.