Brynjar Níelsson er starfandi oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík suður í veikindaleyfi Ólafar Nordal. Brynjar hefur áður tjáð sig um að hann telji að úrslit prófkjöra og þingreynsla eigi að ráða í ráðherravali.

„Lýðræði er þannig að það var prófkjör og úr því varð ákveðin niðurstaða þar sem fólki var raðað upp. Það vill svo til að það eru fimm karlar og ein kona. Ég auðvitað bara horfi til þess að menn virði niðurstöður kosninga,“ sagði Brynjar í Morgunútvarpi Rásar 2 síðastliðinn mánudag.

Þó þessi sjónarmið hafi ekki verið ofaná, hafi hann samt sem áður stutt ráðherraskipunina. Sama átti ekki við um Pál Magnússon, oddvita Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi sem lýst hefur því yfir á facebook síðu sinni að honum fyndist hafa verið gengið fram hjá sínu kjördæmi, þar sem flokkurinn vann sinn stærsta sigur.

Brynjar hefur verið þekktur fyrir húmor og fer hann mikinn á facebook síðu sinni, til að mynda með léttu skoti á Guðlaug Þór Þórðarsson þar sem hann segir marga vegfarendur hafa beðið um að núverandi utanríkisráðherra fái ráðuneyti svo hann geti haft einkabílstjóra.

Síðasta innlegg hans er að nú hafi hann og fleiri í þingflokknum stofnað fýlupúkafélag, en starfsemin hafi fljótt farið í upnám. „Við nokkrir í þingflokki sjálfstæðisflokkksins stofnuðum í hádeginu félag fýlupúka,“ segir Brynjar í nýjustu færslu sinni.

„Tveimur tímum síðar var félagsskapurinn kominn í upplausn vegna deilna um hver ætti að vera formaður. Sumir vildu láta lengd þingferils ráða en aðrir töldu að sá ætti að vera formaður sem væri í mestri fýlu. Ekki var komin niðurstaða í málið þegar þetta fór í prentun.“